Hellishólar
Hellishólar

Fréttir

John Daly dregur sig úr Opna mótinu
John Daly
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 10. júlí 2019 kl. 08:41

John Daly dregur sig úr Opna mótinu

Bandaríski kylfingurinn John Daly mun ekki taka þátt í Opna mótinu eins og gert var ráð fyrir. Tvennum sögum fer af því hvers vegna Daly dró sig úr keppni en tilkynning hans kemur aðeins þremur dögum eftir að R&A hafnaði beiðni hans um að fá að nota golfbíl á Opna mótinu.

Hinn 53 ára gamli Daly glímir við liðagigt í hægra hnénu og á því erfitt með gang. Hann fékk að nota golfbíl á PGA meistaramótinu fyrr á þessu ári en í þetta sinn var það ekki leyft. Ástæðan ku vera sú að R&A vill að allir keppendur séu jafnir og það að ganga völlinn sé hluti af keppninni.

Samkvæmt Twitter færslu frá Daly sjálfum var hann hins vegar bitinn af könguló á ferðalagi í Englandi í síðustu viku, án þess að taka eftir því. Á föstudag var hann svo færður á sjúkrahús með sjúkrabíl og gekkst undir aðgerð.

Það er því ekki ljóst hvort veldur, golfbíllinn eða köngulóin, en eitt er víst að Daly verður ekki með á Opna mótinu í næstu viku.