Fréttir

Johnson búinn að bæta árangur Faldo
Dustin Johnson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 6. október 2020 kl. 08:00

Johnson búinn að bæta árangur Faldo

Heimslisti karla í golfi hefur verið uppfærður eftir mót helgarinnar á stærstu mótaröðum heims. Sigurvegararnir Sergio Garcia og Aaron Rai fara upp listann á meðan Dustin Johnson bætti árangur Nick Faldo þegar hann hélt efsta sætinu.

Garcia sigraði á Sanderson Farms meistaramótinu og fór fyrir vikið upp í 38. sætið en fyrir helgi var hann í 51. sæti. Rai tók töluvert hærra stökk en Englendingurinn ungi situr nú í 88. sæti eftir að hafa verið í 183. sæti í síðustu viku.

Þrátt fyrir að Johnson hafi ekki spilað um helgina hélt hann efsta sæti heimslistans og hefur nú verið í efsta sætinu í 98 vikur. Það er jafnframt einni viku lengur en Nick Faldo afrekaði á sínum tíma og er Johnson nú fjórði á listanum yfir þá sem hafa haldið efsta sætinu lengst frá stofnun heimslistans árið 1986.

Kylfingarnir þrír sem hafa vermt efsta sætið lengur en Johnson eru engir aðrir en Tiger Woods (683), Greg Norman (331) og Rory McIlroy (106).

Flestar vikur í efsta sæti heimslistans frá stofnun árið 1986:

1. Tiger Woods, 683 vikur
2. Greg Norman, 331
3. Rory McIlroy, 106
4. Dustin Johnson, 98
5. Nick Faldo, 97
6. Seve Ballesteros, 61
7. Luke Donald, 56
8. Jason Day, 51
9. Ian Woosnam, 50
10. Brooks Koepka, 47

Hér er hægt að sjá stöðuna á heimslista karla í golfi.