Fréttir

Johnson búinn að segja þjálfara sínum upp
Dustin Johnson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 3. júní 2019 kl. 22:11

Johnson búinn að segja þjálfara sínum upp

Dustin Johnson tilkynnti það á mánudaginn að hann væri hættur að vinna með sveifluþjálfaranum Claude Harmon eftir farsælt samband. Tilkynningin kom töluvert á óvart en nú eru einungis 10 dagar í að Opna bandaríska mótið hefjist.

Fréttirnar bárust fyrst hjá Golf Channel á sunnudaginn en umboðsmaður Johnson staðfesti sögusagnirnar á mánudaginn.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Claude, bæði sem þjálfara og vini, og kann að meta allt það sem hann hefur gert fyrir mig á mínum ferli,“ er haft eftir Johnson í tilkynningunni. „Hann hjálpaði mér tvímælalaust að ná mörgum af mínum markmiðum.“

Johnson á að hafa sagt Claude Harmon upp með sms skilaboðum um helgina.

Johnson mun halda áfram að vinna með pabba Harmon, Butch Harmon, ásamt því að fá aðstoð frá Allen Terrell sem þjálfaði hann í háskólagolfinu. Næsta mót hjá Johnson er RBC Opna kanadíska mótið sem hefst í vikunni. Þar hefur hann titil að verja.