Fréttir

Johnson endað í 2. sæti á öllum risamótunum
Dustin Johnson.
Mánudagur 20. maí 2019 kl. 22:49

Johnson endað í 2. sæti á öllum risamótunum

Dustin Johnson endaði í 2. sæti á PGA meistaramótinu um helgina eftir spennandi endasprett á hinum erfiða Bethpage Black velli í Bandaríkjunum.

Johnson varð að lokum tveimur höggum á eftir Brooks Koepka sem fagnaði sigri í fjórða skiptið í síðustu 8 tilraunum í risamóti.

Með árangri sínum um helgina hefur Johnson endað í 2. sæti á öllum risamótunum fjórum og komst þar með í hóp með þeim Louis Oosthuizen, Tiger Woods, Jack Nicklaus, Tom Watson, Arnold Palmer, Phil Mickelson og Greg Norman sem höfðu áður náð því vafasama afreki.

Johnson varð annar á Opna mótinu árið 2011 þegar Darren Clarke sigraði og var það á þeim tíma hans besti árangur í risamóti. Árið 2015 varð hann svo annar á Opna bandaríska mótinu þegar hann þrípúttaði á lokaholunni og missti af bráðabana.

Í ár hefur Johnson svo bætt við sig öðru sæti á Masters þegar Tiger Woods sigraði eftirminnilega og nú síðast um helgina á PGA meistaramótinu.

Johnson sigraði á Opna bandaríska mótinu árið 2016 og verður í eldlínunni í því móti eftir einungis þrjár vikur þegar mótið fer fram á Pebble Beach vellinum.

Ísak Jasonarson
[email protected]