Fréttir

Johnson og Garcia fengu Nicklaus - Jacklin verðlaunin
Jack Nicklaus er og var mikill heiðursmaður.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
mánudaginn 27. september 2021 kl. 17:40

Johnson og Garcia fengu Nicklaus - Jacklin verðlaunin

Við lokaathöfn Ryder keppninnar voru í fyrsta sinn afhent Nicklaus - Jacklin verðlaunin. Þessi verðlaun eru afhent einum leikmanni úr hvoru liði fyrir íþróttamannslega framkomu og góða liðsvinnu á golfvellinum.

Verðlaunin draga nafn sitt af því þegar Jack Nicklaus gaf Tony Jacklin pútt fyrir hálfum vinningi í lokaleiknum á síðustu flötinni árið 1969. Liðin sættust þannig á jafntefli í keppninni eftir þennan heiðursmannlega gjörning Jack Nicklaus.

Johnson sem var elsti leikmaður bandaríska liðsins tók nýliðana Collin Morikawa og Xander Schauffele undir sinn verndarvæng í keppninni og sigraði í öllum fimm leikjum sínum.

Sergio Garcia var að leika í sinni 10. Ryder keppni. Hann lék með Jon Rahm í þremur leikjum sem þeir sigruðu alla. Meðal annars eftir að hafa lent þrjár holur undir eftir þrjár brautir gegn Brooks Koepka og Daniel Berger.

Garcia er eftir keppnina sá leikmaður Evrópu sem hefur unnið flesta sigra í keppninni 24 talsins. Hann er einnig stigahæsti leikmaður Evrópu í sögu keppninnar með 27 og hálft stig.