Fréttir

Jon Rahm búinn að fá grænt ljós til að keppa á Opna bandaríska meistaramótinu
Jon Rahm.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 14. júní 2021 kl. 16:35

Jon Rahm búinn að fá grænt ljós til að keppa á Opna bandaríska meistaramótinu

Forysta Jon Rahm var sex högg þegar að hann lauk leik á þriðja degi Memorial mótsins sem fór fram fyrir rétt rúmlega viku á PGA mótaröðinni. Rahm náði þó ekki að ganga frá skorkortinu sínu þar sem mótshaldarar tilkynntu honum um leið og hann gekk af 18. flötinni að hann hafi greinst með Covid-19. Hann varð því að draga sig úr keppni og missti hann þar með af sínum sjötta sigri á PGA mótaröðinni.

Menn fóru strax að velta því fyrir sér hvort Rahm yrði orðinn leikfær fyrir þriðja risamót ársins en Opna bandaríska meistaramótið hefst á fimmtudaginn.

Í gær tilkynnti Rahm að hann væri búinn að fara í tvö próf á síðustu 24 klukkustundunum og hefði niðurstaðan í þeim báðum verið neikvæð. Hann er því búinn að fá grænt ljós til að keppa á mótinu. Rahm hefur aldrei unnið risamót á ferlinum en sjö sinnum orðið á meðal 10 efstu í einu af fjórum risamótunum.