Fréttir

Jordan Spieth hugsanlega í vandræðum eftir að komast ekki inn á lokamót ársins
Jordan Spieth
Þriðjudagur 11. september 2018 kl. 08:00

Jordan Spieth hugsanlega í vandræðum eftir að komast ekki inn á lokamót ársins

Þriðja mót FedEx úrslitanna lauk nú undir kvöld og er þá ljóst hvaða 30 kylfingar komast á lokamót mótaraðarinnar sem hefst 20. september. Einn þeirra sem komst ekki er fyrrum efsti maður heimslistans Jordan Spieth en hann endaði í 31. sæti á stigalistanum.

Ásamt því að komast ekki á lokamót ársins í fyrsta skipti á ferlinum þá gæti Spieth lent í veseni fyrir að hafa brotið reglu um fjölda spilaðra móta á tímabilinu.

Fyrir tveimur árum var sú regla sett á laggirnar að kylfingar PGA mótaraðarinnar yrðu að leika á í það minnsta 25 mótum. Markmiðið með þessari reglu var að tryggja að minni mótin fengju sinn skerf af stórum nöfnum hverju sinni. 

Nú þar sem Spieth kemst ekki inn á lokamót ársins þá er ljóst að hann mun ekki ná að spila í nógu mörgum mótum á þessu ári og á hann yfir höfði sér annað hvort 20.000 dollara sekt eða þriggja móta bann. Ljóst er að verði það peningasektin verður ekki erfitt fyrir Spieth að borga þá upphæð.

Undantekning er á þessari reglu en kylfingur verður að vera kominn með lífstíðarrétt á mótaröðinni sem kylfingar gera annað hvort með að sigra á 20 mótum eða meira eða vera á mótaröðinni í það minnsta 15 ár.