Fréttir

Keflvíkingar á Sunny Kef Open á Costa Blanca
Laugardagur 22. október 2022 kl. 09:22

Keflvíkingar á Sunny Kef Open á Costa Blanca

Keflvískir golfarar „á besta aldri“ fögnuðu haustinu með því að spila Texas Scramble á golfmótinu Sunny Kef Open á Costa Blanca svæðinu. Mótið skipulagði Dagfríður Arnardóttir en hún hóaði saman hóp af Keflvíkingum á svæðinu og skipulagði mót fyrir mannskapinn. 

Sigríður Snorradóttir, ein af keppendum mótsins, segir mótið hafa verið vel heppnað. Aðspurð hvernig hópurinn varð til segir Sigríður: „Þetta er allt fólk á besta aldri, eins og maður segir, sem er oft hérna á Spáni til lengri tíma en flestir eiga sumarhús hér. Það er bara gaman að þessu, sumir eiga sumarbústað á Íslandi og aðrir á Spáni“ og bætir við: „Ein úr hópnum, Dagfríður Arnardóttir, ákvað að hóa saman Keflvíkingana og búa til golfmót. Við létum það svo verða að veruleika og þetta var rosalega vel heppnað og allir ótrúlega ánægðir. Svo var gert vel við sig og hópurinn borðaði saman eftir hringinn og veitt verðlaun fyrir fyrsta og annað sætið,“ segir Sigríður.

Fyrsta sætið tóku þau Skúli Skúlason og Inga Lóa Guðmundsdóttir og mikil gleði ríkti meðal kylfinganna en Sigríður segir hópinn stefna á að halda annað mót í vor.