Fréttir

Kevin Na verður ekki með á BMW Championship
Kevin Na.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 13. ágúst 2019 kl. 17:48

Kevin Na verður ekki með á BMW Championship

Bandaríkjamaðurinn Kevin Na hefur dregið sig úr BMW Championship mótinu sem fer fram í vikunni á PGA mótaröðinni. Ástæðan er sú að hann á von á barni á næstu dögum með konu sinni Julianne Na.

Fyrir mótið var Na í 55. sæti FedEx stigalistans og þar sem einungis 30 efstu kylfingarnir á stigalistanum komast áfram á lokamótið er þátttöku hans á PGA mótaröðinni lokið í ár.

BMW Championship mótið hefst á fimmtudaginn og verða nú 69 kylfingar með í mótinu og enginn niðurskurður. Til mikils er að vinna en auk þess að vinna sér inn þátttökurétt á lokamótinu er verðlaunafé fyrir efsta sæti mótsins 1,665 milljónir dollara.