Fréttir

Koepka búinn að vinna fjögur af síðustu átta risamótum
Brooks Koepka.
Mánudagur 20. maí 2019 kl. 09:05

Koepka búinn að vinna fjögur af síðustu átta risamótum

Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka sigraði á PGA meistaramótinu sem fór fram um helgina á Bethpage Black vellinum.

Koepka virðist kunna einstaklega vel við sig í risamótunum en hann hefur sigrað á 6 mótum á PGA mótaröðinni og þar af hafa fjórir af sigrunum komið á risamótum.

Koepka braut ísinn á Opna bandaríska mótinu árið 2017 þegar hann endaði fjórum höggum á undan Brian Harman og Hideki Matsuyama. Síðan þá hefur Koepka sigrað á þremur risamótum til viðbótar og það í einungis sjö tilraunum.

Koepka sigraði aftur á Opna bandaríska mótinu árið 2018 eftir að hafa misst af Masters mótinu vegna meiðsla. Síðar það árið sigraði hann á PGA meistaramótinu í fyrsta sinn eftir harða baráttu gegn Tiger Woods.

Í ár hefur Koepka svo leikið í báðum risamótunum en eftir að hafa endað jafn í öðru sæti á Masters sigraði hann svo um helgina á PGA meistaramótinu í annað sinn.

Næsta risamót er Opna bandaríska mótið sem fer fram dagana 13.-16. júní á Pebble Beach vellinum.

Sigurvegarar síðustu 9 risamóta:

Opna bandaríska 2017: Brooks Koepka
Opna mótið 2017: Jordan Spieth (Koepka í 6. sæti)
PGA meistaramótið 2017: Justin Thomas (Koepka í 13. sæti)
Masters mótið 2018: Patrick Reed (Koepka meiddur)
Opna bandaríska mótið 2018: Brooks Koepka
Opna mótið 2018: Francesco Molinari (Koepka í 39. sæti)
PGA meistaramótið 2018: Brooks Koepka
Masters mótið 2019: Tiger Woods (Koepka 2. sæti)
PGA meistaramótið 2019: Brooks Koepka

Ísak Jasonarson
[email protected]