Fréttir

Koepka dró sig úr keppni vegna meiðsla
Brooks Koepka.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 19. október 2019 kl. 10:30

Koepka dró sig úr keppni vegna meiðsla

Efsti kylfingur heimslistans, Brooks Koepka, hefur dregið sig úr leik á CJ Cup mótinu sem fer fram í Suður-Kóreu á PGA mótaröðinni vegna meiðsla.

Koepka tilkynnti þetta í nótt fyrir þriðja hring mótsins.

„Þegar ég spilaði hringinn á föstudaginn rann ég á blautri steypu og fann aftur til í vinstra hnénu þar sem ég hafði verið meiddur. Eftir að hafa rætt við lækni var mér ráðlagt að draga mig úr keppni á CJ Cup og fara heim í nánari próf. Ég kann að meta áhyggjur og stuðning allra. Ég læt ykkur vita þegar ég veit meira.“

Hinn 29 ára gamli Koepka var á parinu eftir tvo hringi í mótinu, jafn í 51. sæti af 78 keppendum. Hann hafði titil að verja í mótinu eftir magnaða frammistöðu í fyrra.