Fréttir

Koepka missir hugsanlega af Forsetabikarnum
Brooks Koepka.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 13. nóvember 2019 kl. 22:13

Koepka missir hugsanlega af Forsetabikarnum

Í lok síðasta tímabils þurfti Brooks Koepka að gangast undir aðgerð á hné og eftir sex vikna pásu til að jafna sig snéri Koepka aftur á völlinn til að taka þátt í sínu fyrsta móti á nýju tímabili, þar sem hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Koepka hélt svo til Suður-Kóreu þar sem hann tók þátt í CJ Cup mótinu þar sem margir af bestu kylfingum heims voru meðal keppenda. Eftir aðeins einn hring þurfti Koepka aftur á móti að draga sig úr leik vegna meiðsla á sama hné.

Forsetabikarinn fer fram í desember og var Koepka búinn að vinna sér inn sæti í bandaríska liðinu með góðri spilamennsku á árinu. Nú þegar tæplega mánuðir er í keppnina, þar sem bandaríska liðið mæti alþjóða liðinu, er óljóst hvort Koepka verði klár í slaginn.

Einn af þjálfurum Koepka, Claude Harmon III, lét hafa eftir sér að Koepka væri enn að meta stöðuna fyrir Forsetabikarinn.

„Brooks er enn ekki búinn að taka neina ákvörðun. Ég held að hann muni alveg örugglega vera í fríi í einhvern tíma. Þegar íþróttamaður meiðist, skiptir ekki máli í hvaða íþrótt, þá er það eina sem hann vill er að komast aftur út á völl og Brooks vill ólmur komst út á völl aftur að keppa.“

Miðað við þessi ummæli er ljóst að þó svo að Koepka vilji snúa aftur út á völl sem fyrst muni hann taka þann tíma sem hann þarf til þess að ná sér alveg.