Örninn #galvin 2
Örninn #galvin 2

Fréttir

Konurnar leika í A-riðli | Munaði einu höggi hjá körlunum
Frá vinstri: Heiðrún Anna, Saga, Andrea og Hulda Clara. Mynd/GB.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 9. september 2020 kl. 22:07

Konurnar leika í A-riðli | Munaði einu höggi hjá körlunum

Karla- og kvennalandslið Íslands í golfi hófu í dag leik á Evrópumóti áhugakylfinga. Keppnisfyrirkomulagið var með þeim hætti að í dag var leikinn höggleikur, 18 holur, og var eftir það ljóst hvaða 8 lið kæmust í A-riðil og myndu þar með leika til úrslita í mótinu.

Kvennalandslið Íslands er þannig skipað: Heiðrún Anna Hlynsdóttir, Andrea Bergsdóttir, Saga Traustadóttir og Hulda Clara Gestsdóttir.

Karlalandsið Íslands er þannig skipað: Aron Snær Júlíusson, Hákon Örn Magnússon, Dagbjartur Sigurbrandsson og Kristófer Karl Karlsson.

Í Svíþjóð léku íslensku konurnar samtals á 5 höggum yfir pari sem tryggði þeim sæti í A-riðlinum en þær enduðu í 8. sæti í höggleiknum. Hulda Clara lék best af íslenska hópnum en hún lék á höggi undir pari. Hulda fékk þrjá fugla á síðustu fjórum holum dagsins í dag.

Á morgun, föstudag, leikur íslenska liðið gegn Sviss sem enduðu höggleikinn í efsta sæti. Munurinn á liðunum var þó ekki mikill í dag en einungis 8 högg skildu liðin að.

Hér er hægt að sjá úrslitin í höggleiknum í kvennaflokki.

Í Hollandi léku íslensku karlarnir á höggi yfir pari sem var að lokum einu höggi frá því að tryggja þeim sæti í A-riðlinum þar sem þeir enduðu í 9. sæti. Liðið var jafnt Austurríki í 8. sæti og var þá litið til fjórða besta skorsins hjá liðinu.

Hákon Örn Magnússon lék á 76 höggum sem var höggi verra en skorið hjá þeim fjórða besta í liði Austurríkis. Það sem gerir þetta enn meira svekkjandi fyrir karlana er sú staðreynd að Hákon gaf örlítið eftir á lokaholunum á meðan Austurríkismaðurinn fékk fugl á 17. holu og örn á 18. holu.

Íslenska liðið situr hjá í fyrstu umferð á morgun í B-riðli og leikur næsta leik á föstudaginn.

Hér er hægt að sjá úrslitin í höggleiknum í karlaflokki.