Fréttir

Kuchar segist hafa lært af mistökum sínum
Matt Kuchar.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 13. nóvember 2019 kl. 22:25

Kuchar segist hafa lært af mistökum sínum

Eins og frægt er orðið komst Matt Kuchar mikið í fréttirnar á síðasta tímabili og voru ástæðurnar ekki alltaf góðar. Hann fagnaði meðal annars sigri í tveimur mótum en á móti fékk hann á sig slæmt orðspor fyrir að borga kylfubera sínum aðeins 5.000 dollara eftir sigur í stað 10% af sigurfénu eins og venjan er.

Nú hefur Kuchar tjáð sig um síðasta tímabil og segist hann hafa lært mikið af mistökum sínum og sjái eftir hvernig hann hagaði sér.

„Ég veit að það sem gerðist eftir mótið með David [kylfuberanum] er eitthvað sem ég er ekki stoltur af og það voru fyrirsagnir í blöðunum sem ég er ekki stoltur af. Ég hef aftur á móti reynt að bæta mig og reynt að bæta upp fyrir mistök mín gagnvart David og samfélaginu í heild. Ég hef reynt að nota tækifærið og læra af mistökum mínum, til að vaxa og vera betri.“

Matt Kuchar hefur leik á morgun í Mayakoba Golf Classic mótinu sem verður hans fyrsta mót á PGA mótaröðinni á þessu tímabili.