Fréttir

Laporta leiðir í Abú Dabí
Francesco Laporta. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 17. janúar 2020 kl. 17:06

Laporta leiðir í Abú Dabí

Ítalinn Francesco Laporta leiðir með einu höggi eftir tvo hringi á Abu Dhabi HSBC meistaramótinu sem fer fram á Evrópumótaröð karla í golfi.

Laporta fékk fimm fugla í röð á síðustu holum dagsins og kom inn á 63 höggum. Þetta er fyrsta tímabil kappans á Evrópumótaröðinni en hann endaði í efsta sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar í fyrra.

Samtals er Laporta á 10 höggum undir pari, höggi á undan fyrrum Ryder spilurunum Rafa Cabrera Bello og Matt Fitzpatrick.

Spánverjinn Sergio Garcia er svo á 8 höggum undir pari og deilir fjórða sætinu með Kínverjanum Haotong Li og Ítalanum Renato Paratore sem leiddi eftir fyrsta keppnisdag.

Besti kylfingur heims, Brooks Koepka, lék á 75 höggum í dag og datt niður í 35. sæti í mótinu á 3 höggum undir pari í heildina.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.