Fréttir

Leishman einn sá besti á PGA mótaröðinni?
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 28. apríl 2021 kl. 22:58

Leishman einn sá besti á PGA mótaröðinni?

Ástralinn Marc Leishman sigraði á dögunum á Zurich Classic mótinu ásamt liðsfélaga sínum Cameron Smith. Þetta var sjötti sigur Leishman á PGA mótaröðinni og sá fimmti frá árinu 2017.

Árangur Leishman er ansi magnaður en hann er í fámennum hópi kylfinga á PGA mótaröðinni sem hafa unnið fimm eða fleiri titla frá árinu 2017.

Kylfingarnir sem um ræðir eru þeir Justin Thomas, Dustin Johnson, Brooks Koepka, Bryson DeChambeau, Rory McIlroy og Jon Rahm. Leishman hefur sigrað á jafn mörgum mótum og McIlroy og Rahm.

Þeir Johnson og Thomas hafa verið í algjörum sérflokki og eru báðir með 12 sigra. DeChambeau er með 8 sigra á meðan Koepka er með sjö og Leishman, McIlroy og Rahm eru með fimm. Einungis Leishman og DeChambeau hafa ekki vermt efsta sæti heimslistans á þessu tímabili en Leishman hefur hæst komist í 12. sæti.

Kylfingar með fimm eða fleiri sigra á PGA mótaröðinni frá árinu 2017:

12 - Dustin Johnson
12 - Justin Thomas
8 - Brooks Koepka
7 - Bryson DeChambeau
5 - Marc Leishman
5 - Rory McIlroy
5 - Jon Rahm