Fréttir

Lék par 6 braut á 2 höggum - fékk Kondór
Kondórinn flýgur hæst allra fugla. - mynd twitter
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
mánudaginn 3. janúar 2022 kl. 12:21

Lék par 6 braut á 2 höggum - fékk Kondór

Eitt af ótrúlegri atvikum síðasta árs í golfinu átti sér stað í Kaliforníu í desember.

Kevin Pon 54 ára gamall kylfingur var þá við leik á heimavelli sínum Lake Chabot í Oakland. Pon sem er með 10 í forgjöf gerði sér lítið fyrir og lék 18. brautina sem er um 585 metrar og par 6 á 2 höggum.

Teighöggið endaði heilum 486 metrum frá teignum sem liggur nokkru hærra en brautin. Þaðan átti hann aðeins eftir 112 metra í holu sem hann gerði sér lítið fyrir og sló ofan í. Með þessu varð Kevin Pon fyrsti kylfingurinn í sögunni til að leika par 6 braut á 2 höggum.

Golfsamband Kaliforníu rannsakaði atvikið og staðfesti það sem gerst hafði. Í teighögginu hafði Pon verið ótrúlega heppinn og boltinn skoppað nokkrum sinnum á steyptum stíg sem skýrir þessa ótrúlegu lengd í teighögginu.

Kylfingar kannast við hugtökin, Albatross, örn og fugl en kannski færri sem þekkja hugtakið Kondór sem notað er yfir það þegar leikið er 4 höggum undir pari. Fram að þessu höfðu aðeins verið skráð 5 tilvik í Bandaríkjunum í sögunni þar sem kylfingum hafði tekist að fá Kondór. í öllum tilvikum hafði það verið hola í höggi á par 5 braut.

Á Wikipediu er að finna eftirfarandi texta um þessa merku fuglategund.

Kondór er ránfugl af hrævaætt sem skiptist í tvær undirtegundir sem hvorar tveggja lifa í Nýja heiminum. Kondórinn er með risavaxið vænghaf og flýgur fugla hæst. Kondórtegundirnar tvær eru: