Fréttir

LPGA: Green risameistari í fyrsta sinn
Hannah Green.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 23. júní 2019 kl. 22:30

LPGA: Green risameistari í fyrsta sinn

Þriðja risamóti ársins í kvennagolfinu, KPMG PGA meistaramótið, lauk nú fyrir skömmu. Það var ástralski kylfingurinn Hannah Green sem stóð uppi sem sigurvegari. Leikið var á Hazeltine National vellinum í Minnesota í Bandaríkjunum.

Green var með forystu fyrir daginn á samtals níu höggum undir pari. Hún byrjaði daginn vel og var komin á tvö högg undir par á hringnum í dag en um miðbik hringsins komu þrír skollar og hleypti það mikilli spennu í keppnina. Hún náði þó að næla sér í einn fugl til viðbótar og endaði hringinn á 72 höggum og mótið á níu höggum undir pari.

Höggi á eftir Green var Sung Hyun Park. Hún átti einn af betri hringjum dagsins er hún kom í hús á 68 höggum, eða fjórum höggum undir pari. Hún fékk fugl á lokaholunni en það dugði ekki til.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.