Örninn Taylor
Örninn Taylor

Fréttir

LPGA: Ólafía líklega úr leik á Kingsmill Championship
Föstudagur 18. maí 2018 kl. 17:35

LPGA: Ólafía líklega úr leik á Kingsmill Championship

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék í dag annan hringinn á Kingsmill Championship mótinu sem er hluti af LPGA mótaröðinni í golfi. Þrátt fyrir fína spilamennsku er Ólafía að öllum líkindum úr leik en hún þarf að treysta á aðra kylfinga til þess að komast í gegnum niðurskurðinn.

Ólafía lék fyrsta hring mótsins á pari vallarins og var því ljóst að hún þyrfti að leika vel í dag til þess að komast áfram en niðurskurðarlínan miðaðist við þá kylfinga sem voru á höggi undir pari áður en hún hóf leik á öðrum hringnum.

Í dag lék hún svo frábært golf framan af hring en hún hóf leik á 10. holu og var á 3 höggum undir pari þegar hún steig á 8. teig, hennar 17. holu á hringnum. Þá var hún í 27. sæti og útlit fyrir að hún yrði jafnvel í toppbaráttunni um helgina.

Hún missteig sig hins vegar á síðustu tveimur holunum, fékk tvöfaldan skolla á 8. holu (hennar 17. holu) og skolla á 9. holu (hennar 18. holu) og endaði þar með daginn á parinu.


Skorkort Ólafíu.

Eins og staðan er núna er Ólafía jöfn í 75. sæti á parinu í heildina og því þarf hún að treysta á að aðrir kylfingar misstígi sig til þess að komast áfram. Niðurskurðurinn miðast við þá kylfinga sem eru á höggi undir pari og komast um 70 kylfingar áfram. Þó getur mikið breyst því fjölmargir kylfingar eiga eftir að ljúka leik á öðrum hringnum.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is
Icelandair (640 x 150)
Icelandair (640 x 150)