Fréttir

LPGA: Sagstrom sigurvegari í fyrsta sinn eftir spennandi lokadag
Madelene Sagstrom.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 27. janúar 2020 kl. 08:00

LPGA: Sagstrom sigurvegari í fyrsta sinn eftir spennandi lokadag

Sænski kylfingurinn Madelene Sagstrom var rétt í þessu að tryggja sér sinn fyrsta sigur á LPGA mótaröðinni með sigri á Gainbridge LPGA mótinu. Mikil spenna var á lokadeginum og skiptust kylfingar á að vera í forystu.

Sagstrom var með tveggja högga forystu fyrir lokadaginn en erfið byrjun olli því að Nasa Hataoka tók forystuna fljótlega á hringnum. Sagstrom var á tveimur höggum yfir pari eftir sjö holur á meðan Hataoka var á tveimur höggum undir pari. Sagstrom náði þó forystunni að nýju með tveimur fuglum á holum 10 og 11 en Hataoka fékk svo líka tvo fugla á holum 15 og 16 og var þá aftur komin með eins höggs forystu. Sagstrom jafnaði svo við Hataoka á 17. holunni og voru þær því jafnar fyrir lokaholuna.

Á lokaholunni fékk Hataoka skolla og átti Sagstrom tæplega 2 metra pútt eftir fyrir sigrinum. Hún setti púttið í og fagnaði því sínum fyrsta sigri á LPGA mótaröðinni. 

Sagstrom endaði mótið á samtals 17 höggum undir pari á meðan Hataoka endaði á 16 höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.