Örninn Taylor
Örninn Taylor

Fréttir

Manassero með Birgi í lokaúrtökumótinu
Matteo Manassero.
Föstudagur 9. nóvember 2018 kl. 20:42

Manassero með Birgi í lokaúrtökumótinu

Yngsti ítalski sigurvegarinn á Evrópumótaröðinni frá upphafi, Matteo Manassero, er mættur í öðruvísi aðstæður en hann hefur vanist undanfarin ár þar sem hann keppir á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð karla dagana 10.-15. nóvember á Spáni.

Manassero, sem er 25 ára gamall, sigraði á sínu fyrsta móti á Evrópumótaröðinni árið 2010, þá einungis 17 ára gamall. Þremur árum seinna hafði hann unnið fjögur mót á mótaröðinni og var á þeim tíma talinn einn efnilegasti kylfingur heims.


Manassero með bikarinn á lofti í Tékklandi, einungis 17 ára gamall.

Frá árinu 2013 hefur ferill Manassero legið niður á við og er hann í dag í 560. sæti heimslistans og þarf að berjast fyrir sæti sínu á Evrópumótaröðinni í lokaúrtökumótinu næstu daga.

„Þetta er ný reynsla fyrir mig, en ég er að spila vel og hlakka til að keppa,“ sagði Manassero fyrir mótið. „Ég er búinn að æfa frá því á Valderrama. Það er ekki auðvelt að undirbúa sig fyrir þetta mót. Augljóslega þarftu að vera mjög þolinmóður og þú veist að þetta verður mjög langt mót en golfið mitt er á góðum stað, það er stöðugt og ég er spenntur að byrja á morgun.“

Auk Manassero er sjöfaldur Íslandsmeistari, Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG, meðal keppenda í lokaúrtökumótinu. Birgir Leifur lék glæsilegt golf í 2. stigi úrtökumótanna og tryggði sér þar með þátttökurétt á lokaúrtökumótinu.

Birgir hefur þurft að ferðast 500 kílómetra frá Madríd en hann eyddi síðustu dögunum fyrir mótið með því að spila völlinn þrisvar og taka góðar æfingar í ræktinni. Eftir 2. stigs úrtökumótið sagði hann að hann þyrfti að skerpa aðeins á pútternum en hann hafði verið mjög sáttur með járnaspilið.


Birgir Leifur Hafþórsson.

Birgir Leifur hefur leik klukkan 10:35 að staðartíma á laugardaginn og leikur með þeim Oliver Bekker og David Borda. Manassero fer klukkutíma fyrr út á völl og leikur með þeim Bernd Ritthammer og Duncan Stewart. 

Leiknir eru 6 hringir í mótinu sem lýkur á fimmtudaginn. Að því loknu kemur í ljós hvaða 25 kylfingar tryggja sér fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni.

Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is
Icelandair (640 x 150)
Icelandair (640 x 150)