Fréttir

Masters: Matsuyama með fjögurra högga forystu
Hideki Matsuyama.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 11. apríl 2021 kl. 10:03

Masters: Matsuyama með fjögurra högga forystu

Japaninn Hideki Matsuyama er með fjögurra högga forystu fyrir lokahringinn á Masters mótinu sem fer fram á Augusta National vellinum í Georgíu fylki Bandaríkjanna.

Matsuyama lék stórkostlegt golf á þriðja keppnisdegi mótsins þegar hann kom inn á 65 höggum eða 7 höggum undir pari og varð jafnframt fyrsti kylfingurinn í mótinu til að spila hring án þess að fá skolla.

Matsuyama var á einu höggi undir pari á hringnum áður en fresta þurfti leik vegna veðurs. Eftir frestunina mætti Matsuyama aftur á völlinn í miklu stuði, fékk fjóra fugla og einn örn.

Fari svo að Matsuyama vinni á sunnudaginn verður Matsuyama fyrstur Japana til að klæðast græna jakkanum. Matsuyama hefur sigrað á fimm mótum á PGA mótaröðinni en er í leit að sínum fyrsta risatitli.

Fjórum höggum á eftir Matsuyama eru þeir Xander Schauffele, Marc Leishman, Justin Rose og Will Zalatoris sem munu eflaust nýta sér tækifærið ef Matsuyama gefur eftir á lokahringnum. Rose hefur nú leikið tvo hringi í röð á parinu eftir að hafa spilað á 65 höggum á fyrsta keppnisdegi.

Corey Conners er í 6. sæti á 6 höggum undir pari, höggi á undan Jordan Spieth.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.