Fréttir

Masters mótið hugsanlega leikið fyrir luktum dyrum
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
þriðjudaginn 10. mars 2020 kl. 16:24

Masters mótið hugsanlega leikið fyrir luktum dyrum

Kórónaveiran er nú þegar farin að setja mark sitt á golfíþróttina. Í síðustu viku var Francesco Laport sendur heim frá Katar vegna aðgerða þar í landi og í dag var sú ákvörðun tekin að ekki yrði leikið í Keníu á Evrópumótaröð karla vegna veirunnar.

Nú þegar styttist í fyrsta risamót ársins, Masters mótið, hafa ýmsar sögusagnir farið á kreik um mótið í tengslum við veiruna.

Svo gæti farið að mótið, sem fer fram dagana 9.-12. apríl næstkomandi, verði leikið fyrir luktum dyrum. Eins og í fótboltanum, þar sem leikir hafa verið leiknir fyrir tómum stúkum, þá yrðu engum áhorfendum hleypt inn á Augusta National völlinn til þess að fylgjast með bestu kylfingum heims reyna vinna græna jakkann.

„Fólk er að tala um að engir áhorfendur [e. patrons] verði á mótinu. Það eru sögursagnirnar sem hafa gengið manna á milli síðustu daga. Það væri ótrúlegt að spila Augusta með enga áhorfendur,“ sagði Billy Horschel.