Fréttir

Max Homa sigrar á Farmers
Sunnudagur 29. janúar 2023 kl. 07:28

Max Homa sigrar á Farmers

Max Homa sigraði á Farmers Insurance mótinu sem leikið var á Torrey Pines á PGA mótaröðinni. Max lék lokahringinn á 66 höggum og var tveimur höggum betri en Keegan Bradley. Með sigrinum kemst Max í fyrsta skipti uppfyrir 15 sæti á heimslistanum í golfi og situr nú sömuleiðis í 2. sæti Fedex stigalista PGA mótaraðarinnar.  Max Homa er 32 ára og hefur þurft að glíma við ýmsar áskoranir á ferli sínum sem atvinnumaður í golfi. Hann lék á PGA mótaröðinni árið 2017 og náði aldrei að ljúka leik meðal 70 efstu.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og núna er Max einn af sex leikmönnum á mótaröðinni sem unnið hafa sex mót frá því í maí 2019. Hinir eru Rory MacIllroy, Patrick Cantlay, Jon Rahm og Justin Thomas. 

Jon Rahm sem verið hefur sjóðandi heitur undanfarnar vikur lék í lokaráshópi í mótinu aðeins tveimur höggum frá efsta sæti átti hræðilegan dag á vellinum. Leikur hans hrundi. „Ég get ekki útskýrt hvað gerðist“ sagði Jon, sem fékk skolla á fyrstu holu, skramba á þá 5, fugl á 6, skolla á 7 og 10 og var þar með búinn að missa af lestinni.

Max Homa lék hinsvegar á als oddi. Hann náði í fjóra fugla á fyrri níu holunum og þrjá á þeim seinni. Fékk aðeins skolla á 14. holu. Hann hóf leik 5 höggum á eftir efsta manni. „Ég er viss um að ég á eftir að eiga marga fleiri góða daga á golfvellinum en mér líður eins og þessi sé sá besti hingað til.“ sagði Max eftir sigurinn.