Fréttir

McIlroy gefur sjálfum sér C í einkunn
Rory McIlroy.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 1. desember 2020 kl. 14:21

McIlroy gefur sjálfum sér C í einkunn

Rory McIlroy var efstur á heimslista karla í golfi í byrjun árs eftir sjö mót á meðal 5 efstu í röð áður en gert var hlé á stærstu mótaröðum heims vegna Covid-19. Síðan þá átti hann örlítið erfitt uppdráttar en endaði þó í 5. sæti á Masters mótinu í nóvember.

McIlroy var í viðtali við Golfweek á dögunum þar sem hann var beðinn um að gefa sjálfum sér einkunn fyrir árið 2020.

„Þetta var skrítið ár, C,“ sagði McIlroy sem var þá spurður hvort að hvert ár væri sjálfkrafa vonbrigði ef hann sigrar ekki á risamóti.

„Nei, ég átti frábært ár í fyrra og vann ekki risamót,“ svaraði McIlroy. „Í fyrra spilaði ég mitt besta golf þannig að ég tel ekki hvert ár án sigurs á risamóti vonbrigði. Ég tel að hvert ár án sigurs á hvaða móti sem er vonbrigði og því augljóst af hverju árangur þessa árs var vonbrigði.

Það er erfitt því mér fannst ég ná ágætis skriði í byrjun árs og var að spila vel áður en allt stoppaði. Svo átti ég aðeins erfitt eftir pásu, kannski tók það mig lengri tíma en aðra að venjast nýjum aðstæðum.“

Hvað var það sem McIlroy þurfti að venjast? Áhorfendaleysi? Sveifluvandræði?

„Ég held að þetta hafi bara verið að komast andlega á réttan stað fyrir keppnisgolf. Í hvert skipti sem ég fór að spila fyrstu vikurnar leið mér eins og ég væri að spila æfingahring. Mér leið eins og þetta teldi ekki, skipti ekki máli. Þetta var sú tilfinning sem ég hafði. Svo þegar kom að því að mótin kláruðust og strákarnir fóru að vinna þá er ekki eins og það hafi ekki skipt máli.

Að lokum fann ég út úr þessu. Og það er ekki eins og þetta sé að fara neitt - þegar maður horfir á það sem er að gerast þegar við byrjum næsta ár, það verða ekki neinir áhorfendur þá. Þetta voru einfaldlega breyttar aðstæður og ég náði ekki að aðlagast jafn fljótt og sumir aðrir.“