Fréttir

McIlroy: Golf er langt frá því að skipta máli núna
Rory McIlroy.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 25. febrúar 2021 kl. 18:50

McIlroy: Golf er langt frá því að skipta máli núna

Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods er enn á sjúkrahúsi í Kaliforníu en með fullri meðvitund og sýnir viðbrögð eftir bílslys sem hann varð fyrir í vikunni. Hann slasaðist illa á hægri fæti og það er „ekkert minna en kraftaverk“ að hann sé á lífi, að sögn Alex Villanueva lögreglustjóra í Los Angeles.

Framtíðin verður að leiða í ljós hvort Tiger Woods geti spilað golf á hæsta stigi á nýjan leik eftir bílslysið á þriðjudaginn. Rory McIlroy segir að Woods muni áfram geta haft mikil áhrif á golfíþróttina. 

„Hann er þrátt fyrir allt mannlegur og hefur þegar gengið í gegnum svo margt. Á þessu stigi held ég að allir ættu bara að gleðjast yfir því að hann sé enn meðal okkar – að börnin hans hafi ekki misst pabba sinn. Það skiptir mestu máli. Golf er langt frá því að vera það sem skiptir máli núna,“ sagði McIlroy sem hefur í dag leik á fyrsta heimsmóti ársins sem fer fram á Concession vellinum í Flórída.

„Það er óhjákvæmilegt að einn daginn verður hann ekki með og það er eitthvað sem að golfíþróttin og PGA-mótaröðin verða að venjast. Vonandi snýr hann aftur en ef ekki þá held ég að hann muni áfram hafa áhrif á íþróttina, hvort sem það er í gegnum golfvallahönnun sína, samtökin sín, með því að halda golfmót eða hvað sem það verður. Kannski er þeim tíma lokið að við sjáum snillinginn með kylfu í höndunum en hann getur enn haft gríðarleg áhrif á íþróttina með ýmsum hætti,“ sagði McIlroy.