Fréttir

McIlroy kvartar yfir hægum leikhraða
Rory McIlroy.
Laugardagur 16. mars 2019 kl. 11:00

McIlroy kvartar yfir hægum leikhraða

Norður-Írinn Rory McIlroy er í forystu eftir tvo hringi á Players meistaramótinu sem fer fram á TPC Sawgrass vellinum í Bandaríkjunum. Eftir annan hring mótsins, sem hann lék á 65 höggum eða 7 höggum undir pari, talaði hann þó minna um góða spilamennsku sína en gagnrýndi leikhraða mótaraðarinnar.

McIlroy hóf leik klukkan 13:59 að staðartíma og var mættur til að skrifa undir skorkortið sitt um 19:30, rúmum fimm og hálfum tíma seinna.

„Þeir gera ekki neitt í þessu, þetta er orðið að faraldri,“ sagði McIlroy um stjórnendur PGA mótaraðarinnar.

Nokkrir kylfingar náðu ekki að ljúka leik á fimmtudaginn sem fór í taugarnar á McIlroy enda voru aðstæður flottar og leik hafði ekki verið frestað.

„Sú staðreynd að einhverjir hafi ekki náð að klára í gær [á fimmtudaginn] og hafi þurft að koma hingað aftur í dag er óásættanlegt.“

„Mér finnst í hreinskilni sagt að þeir [stjórnendur mótaraðarinnar] þurfi að vera aðeins strangari og gefa mönnum víti fyrir hægan leik fyrr og þannig getum við auðveldlega lagað þetta.“

Ísak Jasonarson
[email protected]