Fréttir

McIlroy meðal neðstu manna á Wentworth
Rory McIlroy.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 19. september 2019 kl. 15:11

McIlroy meðal neðstu manna á Wentworth

BMW PGA meistaramótið á Evrópumótaröð karla hófst í dag á Wentworth golfvellinum í Englandi.

Þegar fréttin er skrifuð er Englendingurinn Matt Wallace efstur í mótinu en sterkir kylfingar á borð við Henrik Stenson, Patrick Reed og Justin Rose byrjuðu einnig vel.

Næst efsti kylfingur heimslistans, Rory McIlroy, byrjaði hins vegar ekki jafn vel og er jafn í 117. sæti á 4 höggum yfir pari.

McIlroy fór þó af stað með miklum látum á hringnum og var á þremur höggum undir pari eftir 5 holur. Það var í raun eini góði kafli McIlroy á hringnum því hann átti eftir að leika síðustu 11 holur vallarins á 7 höggum yfir pari.


Rory McIlroy.

Spilamennska McIlroy kemur nokkuð á óvart en hann er að snúa aftur eftir kærkomna hvíld. Ljóst er að McIlroy þarf að leika vel á morgun til þess að komast í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi. 

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.