Fréttir

McIlroy vill banna flatarbækur og „arm-lockpúttera“
Rory McIlroy.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 16. júní 2021 kl. 22:53

McIlroy vill banna flatarbækur og „arm-lockpúttera“

Rory McIlroy var kosinn formaður leikmannanefndar PGA mótaraðarinnar í ár og virðist vera sem hann sé að berjast fyrir því að bannað verði að nota bæði flatarbækur og svokallaða „arm-lockpúttera“.

Heimildir herma að leikmannanefndin, sem samanstendur af 16 kylfingum PGA mótaraðarinnar, hafi kosið með því að banna flatarbækur. Nú þarf aðeins að fá stjórn PGA til þess að samþykkja breytinguna og þetta gæti því orðið að veruleika fyrir næsta tímabil.

Bækurnar gefa upp nákvæman halla á allri flötinni og vill McIlroy meina að þarna sé verið að að hjálpa þeim sem eyða ekki tíma í það að æfa sig að lesa flatirnar.

„Þetta er ekki beint að veita neinum kylfingi forskot, heldur er þetta að koma í veg fyrir að kylfingar sem eru góðir að lesa flatir standi öðrum framar. Það að lesa flatir er ákveðin hæfni og það þarf að æfa það, bækurnar taka það í burtu.“

McIlroy virðist einnig ætla að berjast fyrir því að svokallaðir „arm-lockpútterar“ verði bannaðir en honum finnst þeir ansi líkir gömlu pútterunum sem menn lögðu upp að bringunni sem voru á endanum bannaðir.

„Ég hélt að við hefðum losað okkur við löngu pútterana fyrir nokkrum árum. En svo komu „arm-lockpútterarnir.““

„Þetta er eitthvað sem ég vil taka fyrir og kylfingar eru almennt sammála því að það þarf að gera eitthvað varðandi þessa púttera.“