Fréttir

McIlroy: „Hver er ástæðan að eiga svona mikinn pening ef þú deilir honum ekki með fólkinu í kringum þig“
Rory McIlroy.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 21. ágúst 2019 kl. 20:16

McIlroy: „Hver er ástæðan að eiga svona mikinn pening ef þú deilir honum ekki með fólkinu í kringum þig“

Rory McIlroy hefur ávallt verið þekktur fyrir mikla hreinskilni í öllum viðtölum og er hann af mörgum elskaður og dáður meðan aðrir jafnvel hata hann. Í viðtali fyrir Tour Championship mótið, sem hefst á morgun, var rætt um upphæðirnar sem fylgja mótinu en sigurvegari mótsins mun ganga í burtu með 15 milljón dollara.

Þrátt fyrir að upphæðirnar séu strjarnfræðilega segir McIlroy að peningarnir skipti ekki öllu máli.

„Eru peningar ein af ástæðunum? Að sjálfsögðu væri gaman að vinna á sunnudaginn og fá þessar 15 milljónir en á sama tíma skipti mig meira máli að vinna mótið og spila í leiðinni vel.“

Í framhaldinu ræddi hann um það hversu gaman það væri að geta deilt þessum pening með þeim sem þess þurfa og þeim sem eru næstir honum.

„Hver er ástæðan að eiga svona mikinn pening ef þú deilir honum ekki með fólkinu í kringum þig. Einn af kostum þess að eiga pening er að þú getur hjálpað þeim sem þér þykir vænt um og þú getur stutt við góð málefni, sem þarf ekki einu sinni að tengjast þér á neinn hátt og mér finnst það gaman.“

Greinilegt að McIlroy er með hjartað á réttum stað en hann hefur verið duglegur að styrkja málefni í heimalandi sínu.