Fréttir

McIlroy: „Mér hefur gengið vel með þessi högg“
Rory McIlroy.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 17. febrúar 2020 kl. 20:11

McIlroy: „Mér hefur gengið vel með þessi högg“

Rory McIlroy var til alls líklegur í gær til þess að vinna sitt 19. mót á PGA mótaröðinni en eftir fjórar holur á lokadegi Genesis Invitational mótsins í gær var hann jafn í efsta sætinu ásamt Adam Scott. Þá fór aftur á móti allt úrskeiðis og náði hann aldrei að koma til baka eftir hremmingar fimmtu holunnar.

Á fimmtu holunni lenti McIlroy í því að fá þrefaldan skolla. Hann sló yfir flötina í öðru höggi og þurfti tvö vipp til þess að koma sér upp á flötina. Hann gerði sig svo sekan um stór mistök þegar að hann þrípúttaði frá um sex metrum.

Í viðtali eftir hringinn var McIlroy að sjálfsögðu spurður út í holuna og sagðist hann einfaldlega hafa fengið „flyer“ og hafi því boltinn farið of langt.

„Ég fékk smá 'flyer' úr karganum. Ég var að reyna að slá létt 9-járn á fremsta hlutann af flötinni en boltinn flaug nánast að holunni. Augljóslega ekki staðurinn sem þú vilt enda á.“

Hann sagði þó að honum hafi gengið vel með þessi högg alla vikuna þegar hann var spurður út í vippið sem hann þurfti tvær tilraunir við.

„Ég hitti boltann aðeins þunnan þannig að boltinn fór aðeins lægra en ég vildi. Ofarlega í brekkunni kom smá sylla og svo önnur brekka upp á flötina. Ég ætlaði mér að lenda boltanum á syllunni og ég hitti hann einni rák (e. groove) of neðarlega. Þá fór boltinn í fyrri brekkuna og hann stoppaði við það.“

„Ef ég hefði flogið upp á sylluna þá hefði boltinn mjög líklega farið alveg upp á flötina af því ég var búinn að framkvæma þessi högg vel alla vikuna. Ég var búinn að vippa boltanum í brekk áður og látið hann skoppa þannig inn á flötina og mér hafði gengið vel með þetta. Ég flaug boltanum bara ekki nógu langt þarna.“