Fréttir

Með sveiflugreini á hendinni
Laugardagur 28. janúar 2023 kl. 22:02

Með sveiflugreini á hendinni

Íslandsvinurinn Annika Sörenstam er ekki dauð úr öllum æðum í golfinu þótt hún sé hætt í keppnisgolfi. Hún lék í opnunarmóti LPGA mótaraðarinnar HGV Tournament of Champions, en þar var leikið með ProAm fyrirkomulagi, þar sem frægir kylfingar sem ekki eru á mótaröðinni leika með.  Annika er í hörkuformi, lék fyrsta hringinn á 69 höggum og fékk ekki einn einasta skolla. „Þetta var fyrsti hringurinn á skolla í þó nokkurn tíma“ sagði hún. 

Í mótinu notaði hún deWiz sveiflugreini. Um er að ræða búnað sem rétthentir kylfingar setja á vinstri hendina eins og úr. Búnaðurinn greinir sveifluferil, lengd og tíma baksveiflunnar. Allar sveiflur hringsins eru greindar og hægt er að fá ýmsar tæknilegar niðurstöður um lykilþætti í sveiflunni til að ná sem bestum höggum.

„Þetta er frábær búnaður til að greina hvernig ég skipti úr bak- yfir í framsveiflu, lengd baksveiflunnar og tempóið. Ég á það til að slá til vinstri en búnaðurinn gerir mér kleift að vera nákvæmari og slá betur“ segir Annika.

DeWiz búnaðurinn var notaður til að greina öll högg sem Annika sló á æfingasvæðinu fyrir opnunarhringinn og þau högg voru svo borin saman við hringinn. Niðurstöðurnar voru að sveiflan hjá Anniku var í toppmálum allan hringinn.

Búnaðurinn hefur einnig sýnt að þegar Annika tekur lélega sveiflu, þá er baksveiflan styttri og tempoið hraðara. Niðurstaðan sú að hún húkkar boltann til vinstri.

„Helsti kosturinn við þessa tækni er að búnaðurinn getur sýnt mér hvort ég sé ná að halda sveiflu á æfingasvæðinu og úti á velli.“ 

DeWiz búnaðurinn er hannaður af hinum sænska Markus Westerberg sem er fyrrverandi atvinnumaður á evrópsku mótaröðinni og nýsköpunar- og tæknimanninum Christian Bergh. Markmið fyrirtækis þeirra er að auka ánægju kylfinga um allan heim og gera þeim kleift að bæta golfið með hjálp tækninnar.