Fréttir

Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 24. júní 2019 kl. 10:00

Meiri sveiflur í forgjöfinni með nýja forgjafarkerfinu

Líkt og Kylfingur greindi frá í síðustu viku verður nýtt forgjafarkerfi tekið í notkun á Íslandi árið 2020. Forgjafarkerfið, sem kallast WHS, sameinar öll sex forgjafarkerfi heims í eitt þannig að allir geti spilað eftir sömu forgjafarreglum.

Nýja kerfið virkar í grófum dráttum þannig að forgjöfin mun reiknast út frá meðaltali bestu átta hringjanna af þeim síðustu 20 sem kylfingurinn lék.

Sigmundur Einar Másson, fyrrum Íslandsmeistari í höggleik og núverandi hlaðvarpsstjórnandi Golfkastsins, er ánægður með þessa breytingu og segir hana jákvæða fyrir marga kylfinga.

„Nýja forgarfarkerfið er mjög jákvætt þar sem núna verður auðveldara að bera forgjöf saman milli landa. Það að 8 bestu hringirnir af síðustu 20 telji mun hjálpa þeim sem spila mikið til forgjafar þar sem þeirra forgjöf mun gefa alveg rétta mynd af forgjöfinni þess tíma.“

Að sögn Sigmundar mun þessi breyting hafa þau áhrif á íslenska kylfinga að forgjöf þeirra muni sveiflast meira en undanfarin ár.

„Þeir sem spila minna til forgjafar sjá minni mun en þeir sem spila meira. Kylfingar munu lækka hraðar og hækka hraðar í það heila. Bandaríkin hafa verið með 10 bestu af síðustu 20 hringjum í mörg ár. Með nýja fyrirkomulaginu þá er forgjöfin okkar aldrei „eldri“ en síðustu 20 hringir. Að spila góðan hring tekur út 8. besta hringinn og setur annan góðan inn sem gerir það að verkum að kylfingur ætti að lækka hratt í forgjöf. Það gildir síðan líka í hina áttina þegar besti hringurinn dettur út úr síðustu 20 hringjum.

Að lokum er þetta góð breyting fyrir okkur Íslendinga þar sem aðstæður til að spila eru ekki eins og í heitari löndum þ.e.a.s fullkomnar brautir og flatir, 25 stiga hiti og logn, því nú verða aðstæður teknar inn í útreikning á forgjöf.“

Það verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst á næsta ári að innleiða nýja forgjafarkerfið en að sögn Sigmundar mun forgjöf íslenskra kylfinga uppfærast um leið og kerfið verður notað og því gætu einhverjir lent í því að hækka eða lækka töluvert í forgjöf áður en golftímabilið hefst á næsta ári.


Sigmundur Einar Másson og Svala Óskarsdóttir.