Fréttir

Michelle Wie West snýr aftur í næstu viku
Michelle Wie West hefur um árabil verið á meðal allra fremstu golfkvenna heims.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
fimmtudaginn 13. janúar 2022 kl. 10:42

Michelle Wie West snýr aftur í næstu viku

Síðustu ár hafa verið viðburðarík í lífi Michelle Wie West þó ekki hafi farið mikið fyrir henni á golfvellinum.

Í júní 2019 ákvað hún að taka sér hlé frá golfi vegna úlnliðsmeiðsla. Í ágúst 2019 giftist hún eiginmanni sínum Jonnie West. Jonnie West er einn af framkvæmdastjórum körfuboltaliðsins Golden State Warriors og sonur körfuboltahetjunnar Jerry West. Seinna það sama ár komst hún að því að hún bæri barn undir belti. Dóttir hennar og Jonnie West, Makenna kom svo í heiminn 19. júní 2020.

Endurkoma Wie West á golfvöllinn hófst í mars á síðasta ári þegar hún lék á Kia Classic mótinu. Þá voru liðin tæp tvö ár frá síðasta móti. Hún lék alls í 6 mótum á síðasta tímabili en komst aðeins í gegnum niðurskurðinn á tveimur þeirra. Það tekur eðlilega tíma að ná upp fyrri styrk eftir svo langa fjarveru.

Hún hefur nú boðað komu sína á fyrsta mót ársins sem hefst í næstu viku, Hilton Tournament of Champions á Lake Nona vellinum í Orlando.

Hún hefur látið hafa eftir sér að á tímabili hafi hún verið efins um það hvort hún myndi snúa aftur í keppnisgolf. Sú tilfinning hafi þó breyst og nú brenni hún fyrir það að dóttir hennar fái að fylgjast með henni keppa. Það að hafa fylgst með Tiger og Charlie Woods á PNC mótinu hafi gefið henni mikinn innblástur.

Vonandi nær Wie West að koma sér aftur í hóp bestu kylfinga heims áður en langt um líður.