Fréttir

Mickelson með tvo sigra í jafn mörgum tilraunum
Phil Mickelson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 18. október 2020 kl. 22:20

Mickelson með tvo sigra í jafn mörgum tilraunum

Phil Mickelson varð fimmtugur fyrr á þessu ári og er hann því kominn með keppnisrétt á PGA Champions mótaröðinni sem er mótaröð fyrir kylfinga sem eru 50 ára og eldri.

Hann tók þátt í sínu fyrsta móti á mótaröðinni í ágúst og gerði sér þá lítið fyrir og vann sitt fyrsta mót. Síðan þá hefur hann leikið í nokkrum mótum á PGA mótaröðinni en um helgina tók hann þátt í sínu öðru móti á PGA Champions mótaröðinni. Með frábærum lokahring á Dominion Energy Charity Classic mótinu í dag tókst honum að vinna upp þriggja högga forystu Mike Weir og endaði Mickelson á að vinna mótið með þremur höggum.

Mickelson lék lokahringinn á 65 höggum, eða sjö höggum undir pari, og endaði hann mótið á samtals 17 höggum undir pari. Það tók hann því ekki nema tvö mót að ná tveimur sigrum og hefur hann því aldrei tapað á PGA Champions mótaröðinni.

Aðeins tveimur kylfingum hefur tekist að vinna tvö fyrstu mótin sem þeir taka þátt í en hinir kylfingarnir eru þeir Bruce Fleisher og Jim Furyk. Furyk vann sín mót fyrr á þessu ári.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.