Fréttir

Molinari með tveggja högga forystu fyrir lokahringinn á Masters
Francesco Molinari. Mynd: GettyImages.
Laugardagur 13. apríl 2019 kl. 22:50

Molinari með tveggja högga forystu fyrir lokahringinn á Masters

Ítalinn Francesco Molinari er með tveggja högga forystu fyrir lokahringinn á Masters mótinu. Molinari er á 13 höggum undir pari eftir þrjá hringi en hann lék þriðja hringinn á 6 höggum undir pari.

Molinari, sem sigraði á Opna mótinu í fyrra, hóf daginn í forystu ásamt Louis Oosthuizen, Adam Scott, Jason Day og Brooks Koepka. Hann lék nánast óaðfinnanlega í dag, fékk sex fugla og tapaði ekki höggi.

Þrír kylfingar léku á 64 höggum eða 8 höggum undir pari í dag. Einn þeirra, Tony Finau, er jafn í 2. sæti á 11 höggum undir pari í heildina. Finau deilir öðru sætinu með Tiger Woods sem er í leit að fimmta græna jakkanum og þeim fyrsta frá árinu 2005.

Woods lék þriðja hringinn á 5 höggum undir pari. Eftir skolla á 5. holu fékk hann sex fugla á síðustu 13 holunum og verður í lokahollinu á sunnudaginn með Molinari og Finau.

Þrefaldi risameistarinn Brooks Koepka er í 4. sæti á 10 höggum undir pari, höggi á undan Webb Simpson og Ian Poulter.

Ljóst er að sigurvegari síðasta árs, Patrick Reed, mun ekki verja titil sinn en hann er jafn í 47. sæti fyrir lokahringinn á höggi yfir pari í heildina.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Staða efstu kylfinga:

1. Francesco Molinari, -13
2. Tony Finau, -11
2. Tiger Woods, -11
4. Brooks Koepka, -10
5. Webb Simpson, -9
5. Ian Poulter, -9
7. Matt Kuchar, -8
7. Justin Harding, -8
7. Xander Schauffele, -8
7. Louis Oosthuizen, -8
7. Dustin Johnson, -8

Ísak Jasonarson
[email protected]