Fréttir

Molinari skiptir um kylfusvein
Francesco Molinari. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 17. október 2019 kl. 21:48

Molinari skiptir um kylfusvein

Fjögurra ára samstarfi þeirra Francesco Molinari og kylfusveinsins Pello Iguaran er lokið. Þetta kemur fram á samfélagsmiðlum Molinari en hann skrifar í dag um sambandsslit þeirra.

„Þetta hafa verið næstum því fjögur ár af ótrúlegum tilfinningum og mjög markvissri vinnu en því miður enda sum sambönd, jafnvel þó það sé ekki það sem við viljum,“ sagði Molinari á Twitter síðu sinni.

Árið 2018 var það besta hjá Molinari á hans ferli en það árið sigraði hann á BMW PGA meistaramótinu, Opna mótinu og vann alla sína leiki í Ryder bikarnum þegar Evrópa fagnaði sigri á Le Golf National vellinum.

Í ár bætti hann við sig sigri á PGA mótaröðinni eftir frábæra frammistöðu á Bay Hill vellinum og stuttu seinna var hann í forystu þegar níu holur voru eftir af Masters mótinu. Síðan þá hefur leiðin legið niður á við en hann hefur spilað í 11 mótum frá því í apríl án þess að enda á meðal 10 efstu. Um síðustu helgi lék hann á Opna ítalska mótinu í heimalandi sínu en komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Molinari verður með Jason Hempleman á pokanum út árið en frá og með næsta ári verður Mark Fulcher kylfuberi hans en hann var kylfuberi Justin Rose í 11 ár.