Fréttir

Moliwood saman í holli á Evrópumótaröðinni
Tommy Fleetwood og Francesco Molinari eru miklir vinir.
Miðvikudagur 10. október 2018 kl. 21:37

Moliwood saman í holli á Evrópumótaröðinni

Ítalinn Francesco Molinari og Englendingurinn Tommy Fleetwood verða saman í holli fyrstu tvo hringina á British Masters mótinu sem er hluti af Evrópumótaröð karla. Auk þeirra verður annar Ryder spilari, Thorbjörn Olesen, með þeim í holli.

Molinari og Fleetwood, sem fengu viðurnefnið Moliwood eftir Ryder bikarinn, léku síðast saman í fjórða og síðasta leik þeirra í Ryder bikarnum í Frakklandi þegar þeir unnu fjórða leikinn í röð í keppninni og skráðu sig í sögubækurnar en þeir voru fyrstir Evrópumanna til að afreka það.

„Það verður svolítið skrítið að reyna að vinna hvorn annan í stað þess að spila saman,“ sagði Molinari á blaðamannafundi fyrir British Masters.

Molinari er efstur á stigalistanum fyrir mótið en hann er búinn að eiga frábært tímabil. Fleetwood er annar en hann varð stigameistari í fyrra.

„Það er stóra markmiðið (að verða stigameistari) en Tommy og fleiri góðir kylfingar munu reyna að ná mér. Það eru enn mörg stig og mikill peningur í boði þannig að ég get einungis einbeitt mér að einum degi í einu, og einu móti í einu, eins og ég hef gert hingað til.“ sagði Molinari að lokum.

Ísak Jasonarson
[email protected]