Fréttir

Mótsmetið í hættu?
Francesco Molinari er í góðri stöðu fyrir lokahringinn á Masters mótinu. Mynd: GettyImages
Sunnudagur 14. apríl 2019 kl. 11:00

Mótsmetið í hættu?

Francesco Molinari er með tveggja högga foyrstu fyrir lokahringinn á Masters mótinu sem fram fer á Augusta National vellinum.

Molinari er á 13 höggum undir pari eftir þrjá hringi og nálgast besta skor frá upphafi í mótinu sem Tiger Woods setti árið 1997 þegar hann lék á 18 höggum undir pari. Jordan Spieth jafnaði svo metið árið 2015.

Molinari lék þriðja hringinn á 6 höggum undir pari og tapaði ekki höggi á hringnum. Miðað við skor keppenda á þriðja hringnum, þar sem þrír kylfingar léku á 64 höggum eða 8 höggum undir pari, má áætla að efstu menn muni á einhverjum tímapunkti á lokahringnum nálgast met Woods og Spieth.

Molinari verður í lokaráshópnum með Tony Finau og fyrrnefndum Tiger Woods. Þeir fara af stað klukkan 13:20 að íslenskum tíma.

Lægsta skor á Masters mótinu frá upphafi:

-18: Tiger Woods (1997) og Jordan Spieth (2015)
-17: Jack Nicklaus (1965) og Raymond Floyd (1976)
-16: Tiger Woods (2001) og Phil Mickelson (2010)
-15: Patrick Reed (2018)

Ísak Jasonarson
[email protected]