Fréttir

Munaði litlu að Castren fengi ekki að vera með - Pedersen lék gegn kærasta sínum
Það munaði ekki miklu að Castren fengi ekki að keppa með evrópska liðinu.
Nökkvi Gunnarsson
Nökkvi Gunnarsson skrifar
þriðjudaginn 7. september 2021 kl. 11:27

Munaði litlu að Castren fengi ekki að vera með - Pedersen lék gegn kærasta sínum

Jafntefli hefði dugað evrópska liðinu til þess að halda Solheim bikarnum innan sinna raða í gær. Það var hin finnska Matilda Castren sem tryggði Evrópu fjórtánda vinninginn og þar með áframhaldandi vörslu bikarsins.

Það munaði litlu að Castren fengi ekki að vera með í ár þar sem hún var ekki meðlimur á Evrópumótaröð kvenna. Castren leikur að mestu á LPGA mótaröðinni og varð í júní fyrst finnskra kylfinga til að sigra á þeirri mótaröð þegar hún sigraði á Mediheal Championship.

Eina leiðin til þess að verða fullgildur meðlimur á Evrópumótaröðinni á miðju tímabili er að sigra á móti. Castren gerði einmitt það um miðjan júli þegar hún sigraði á Gant Ladies Open á heimavelli í Finnlandi. Þar með varð hún fyrsta finnska konan til að leika í Solheim bikarnum.

Emily Pedersen sem tryggði svo Evrópu sigurinn þegar hún vann Danielle Kang í síðustu viðureign mótsins var í frekar undarlegri stöðu í gær.

Kærasti hennar til nokkurra ára Olly Brett er nefnilega kylfusveinn Danielle Kang og hefur verið frá árinu 2017. Pedersen sagði eftir hringinn að staðan hafi vissulega verið frekar skrýtin. Þau séu vön að tala mikið saman og grínast í hvoru öðru en hafi ekki sagt orð hvort við annað á hringnum í gær. Þetta sé þó farið að venjast því þetta hafi gerst nokkrum sinnum áður.