Fréttir

Munoz byrjaði best á Zozo meistaramótinu
Sebastian Munoz.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 23. október 2020 kl. 09:20

Munoz byrjaði best á Zozo meistaramótinu

Sebastian Munoz er efstur í Zozo meistaramótinu eftir fyrsta keppnisdaginn sem fór fram á fimmtudaginn. Mótið er haldið á Sherwood vellinum sem Jack Nicklaus hannaði og er hluti af PGA mótaröðinni.

Munoz lék fyrsta hring mótsins á 8 höggum undir pari en skorkortið hans var ansi skrautlegt. Hann fékk átta fugla, tvo erni, tvo skolla og einn tvöfaldan skolla á hringnum og er með eins höggs forystu í efsta sætinu.

Höggi á eftir Munoz eru þeir Tyrrell Hatton og Justin Thomas. Hatton hefur verið í frábæru formi undanfarnar vikur og er í fyrsta sinn á ferlinum á meðal 10 efstu á heimslistanum.

Tiger Woods, sem hefur titil að verja í mótinu, spilaði sig úr möguleika á sigri um helgina þegar hann kom inn á 4 höggum yfir pari á fyrsta hringnum. Woods átti næst versta hring dagsins en einungis Adam Long (+5) lék á hærra skori en Woods.

Annar hringur mótsins fer fram í dag. Hér er hægt að sjá stöðuna.