Fréttir

Myndband: Fyrsti sigur Rooyen og Stenson fór holu í höggi
Erik van Rooyen. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 25. ágúst 2019 kl. 16:30

Myndband: Fyrsti sigur Rooyen og Stenson fór holu í höggi

Erik van Rooyen fékk fugl á síðustu holu og fagnaði þar með sigri með eins höggs mun eftir spennandi lokahring á Scandinavian Invitation mótinu á Evrópumótaröð karla.

Rooyen var í leit að sínum fyrsta titli á Evrópumótaröðinni um helgina eftir að hafa þrisvar endað í öðru sæti á mótaröðinni.

Hann hóf lokahringinn í Gautaborg með eins höggs forystu en þeir Matt Fitzpatrick og Henrik Stenson náðu báðir að jafna hann á lokahringnum.

Stenson fór holu í höggi á lokahringnum og endaði mótið jafn Dean Burmester í þriðja sæti. Myndband af högginu má sjá hér fyrir neðan.

Fitzpatrick, sem sigraði á mótinu árið 2016, endaði mótið á tveimur fuglum í röð og kom inn á 18 höggum undir pari á meðan Rooyen fékk skolla á 17. holu og voru þeir jafnir á þeim tímapunkti.

Hinn 29 ára gamli Rooyen setti hins vegar niður tæplega 5 metra pútt fyrir fugli á síðustu holunni og sigraði því með minnsta mun.

Sigur Rooyen er 150. sigur kylfings frá Suður-Afríku en hann færist upp í topp-10 á stigalista mótaraðarinnar.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.