Fréttir

Myndband: Garcia aðstoðaði aðdáanda að biðja kærustunnar
Sergio Garcia.
Föstudagur 15. mars 2019 kl. 09:30

Myndband: Garcia aðstoðaði aðdáanda að biðja kærustunnar

Sergio Garcia byrjaði nokkuð vel á Players meistaramótinu í gær en hann lék á þremur höggum undir pari og er jafn í 13. sæti. Kannski að heilladísirnar séu með honum þessa helgina eftir að hafa gert stórt góðverk daginn áður en mótið hófst.

Þrátt fyrir að mótið sé eitt það stærsta á hverju ári gaf hann sér engu að síður tíma til að taka sér smá pásu frá æfingahringnum sínum á miðvikudaginn til að hjálpa aðdáenda að biðja kærustu sinnar á 17. holunni.

Garcia gekk að 17. teignum vitandi vel hvað var að fara gerast á þessari sögufrægu golfholu. Eftir að hafa slegið upphafs höggið sitt náði Garcia í Emmu Baxley og fékk hana með sér inn á flötina. Á meðan hljóp kærasti Emmu, Ricardo Fonseca, og náði í nokkur blóm. Hann var svo mættur á göngustíginn upp að flötinni.

Þar bar hann upp stóru spurninguna og sem betur fer svaraði hún því játandi. Garcia færði þeim svo gjöf frá Players meistaramótinu upp á 20,000 dollara sem á að fara upp í kostnað brúðkaupsins.