Fréttir

Myndband: Harding fékk að finna fyrir glompu á Opna mótinu
Justin Harding.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 19. júlí 2019 kl. 22:00

Myndband: Harding fékk að finna fyrir glompu á Opna mótinu

Suður-Afríkubúinn Justin Harding jafnaði vallarmetið á Royal Portrush vellinum í dag á Opna mótinu þegar hann kom í hús á 65 höggum, eða sex höggum undir pari. Hann er eftir daginn jafn í fimmta sæti á samtals sex höggum undir pari nú þegar mótið er hálfnað.

Harding lék á pari vallar í gær og var því aðeins fimm höggum á eftir efstu mönnum fyrir daginn í dag. Hann lenti aftur á móti í miklum vandræðum á fimmtu holunni í gær en þá sló hann í eina af glompum vallarins.

Eins og gengur og gerist á völlunum sem leiknir eru á Opna mótinu þá eru svokallaðir pottbönkerar út um allan völl og geta þeir komið mönnum í ýmis vandræði. Harding sló í einn þannig og var boltinn hans grafinn alveg upp við bakkann. Hann reyndi að slá boltann en gekk þó ekki betur en svo að boltinn var enn í glompunni eftir höggið og hann lá einnig kylliflatur í glompunni. Myndbandi af atvikinu má sjá hér að neðan.