Fréttir

Myndband: Leik frestað í Portúgal
Haraldur Franklín á lítið eftir af öðrum hringnum.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 18. september 2020 kl. 16:55

Myndband: Leik frestað í Portúgal

Vegna veðurs var ekki hægt að klára annan hringinn í dag á Opna portúgalska mótinu sem haldið er á Evrópu- og Áskorendamótaröðinni í golfi. Mikill vindur gerði kylfingum erfitt fyrir auk rigningar en hér neðst í fréttinni má sjá hvernig ástandið var á tímabili.

Tveir íslenskir kylfingar eru í eldlínunni í mótinu en það eru þeir Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús, báðir úr GR.

Guðmundur byrjaði daginn í 8. sæti á 3 höggum undir pari en hann náði ekki að spila nema eina og hálfa holu í dag og því nóg golf eftir hjá honum um helgina. Blaðamaður Kylfings hefur ekki heimildir fyrir því á hvaða skori Guðmundur var á fyrstu holunni en GR-ingurinn sagðist sjaldan hafa spilað í verra veðri.

Haraldur Franklín fór fyrr af stað í dag og náði að klára 15 holur áður en leik var frestað til morguns. Haraldur er á 5 höggum yfir pari og jafn í 100. sæti, þremur höggum frá niðurskurðarlínunni eins og staðan er núna. Takist honum að klára hringinn vel á morgun ætti hann að eiga möguleika á að komast áfram.


Skorkort Haralds.

Þrátt fyrir þessa frestun er enn stefnt að því að mótið klárist á sunnudaginn en alls verða leiknir fjórir hringir.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.