Fréttir

Myndband: Lowry bætti met og tók afgerandi forystu á þriðja hring Opna mótsins
Shane Lowry.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 20. júlí 2019 kl. 19:00

Myndband: Lowry bætti met og tók afgerandi forystu á þriðja hring Opna mótsins

Þriðji hringur Opna mótsins, sem leikið er á Royal Portrush vellinum, fór fram í dag og má með sanni segja að Írinn Shane Lowry hafi stolið senunni. Ekki nóg með að setja nýtt vallarmet þá er forysta hans fyrir lokahringinn hvorki meira né minna en fjögur högg.

Lowry lék fyrri níu holurnar á þremur höggum undir pari, þar sem hann fékk þrjá fugla. Hann setti svo heldur betur í fluggír á síðari níu holunum en þar fékk hann fimm fugla og fjögur pör. Hringinn lék hann því á 63 höggum, eða átta höggum undir pari, sem er nýtt vallarmet. Samtals er Lowry á 16 höggum undir pari fyrir lokadaginn.

Einn í öðru sæti á 12 höggum undir pari er Englendingurinn Tommy Fleetwood. Hann átti einn af betri hringjum dagsins en hann kom í hús á 66 höggum, eða fimm höggum undir pari. Hann tapaði ekki höggi á hringnum í dag.

Næstur á 10 höggum undir pari er J.B. Holmes. Brooks Koepka og Justin Rose eru svo jafnir í 4. sæti á 9 höggum undir pari.

Lokadagur mótsins fer fram á morgun en stöðuna í mótinu má sjá hérna.