Fréttir

Myndband: Mickelson fór holu í höggi í garðinum hjá Nantz
Phil Mickelson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 5. júní 2019 kl. 21:25

Myndband: Mickelson fór holu í höggi í garðinum hjá Nantz

Bandaríkjamaðurinn Phil Mickelson birti á miðvikudaginn skemmtilegt myndband þar sem hann sýndi frá því þegar hann fór holu í höggi í bakgarðinum hjá íþróttafréttamanninum Jim Nantz.

„Ég geri mig tilbúinn fyrir Opna bandaríska mótið með því að fara holu í höggi á 7. holu á Pebble Beach,“ sagði Mickelson í færslunni en eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan er holan eftirlíking af 7. holunni á Pebble Beach þar sem Opna bandaríska mótið fer fram dagana 13.-16. júní.

Mickelson var að sjálfsögðu ánægður með höggið og fagnaði vel með félögum sínum en í bakgrunni var Nantz sjálfur að lýsa högginu.

Mickelson er í leit að sínum fyrsta sigri á Opna bandaríska mótinu en það er eini risatitillinn sem hann á eftir að vinna. Mickelson hefur verið grátlega nálægt því að vinna mótið oftar en einu sinni og endað sex sinnum í öðru sæti, síðast árið 2013.