Fréttir

Myndband: Mickelson mögulega með ótrúlegustu krækju allra tíma
Phil Mickelson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 21. janúar 2021 kl. 21:59

Myndband: Mickelson mögulega með ótrúlegustu krækju allra tíma

Phil Mickelson fór ekki vel af stað á The American Express mótinu sem hófst í kvöld á PGA mótaröðinni. Í dag hefur hann lokið við 15 holur og er hann sem stendur á höggi yfir pari og jafn í 126. sæti.

Það er búið að ganga á ýmsu á hringnum hjá Mickelson en það sem stendur eflaust upp úr er pútt sem hann missti á 15. holunni.

Hann hóf leik á 10. holu í dag og var þetta því hans sjötta hola. Eftir tvö högg var hann í glompu við flötina og eftir gott glompuhögg var hann um meter frá holunni. Púttið var fyrir fugli og virtist allt stefna í það að kúlan færi ofan í. Kúlan rann í átt að holunni og fór rétt um einn og hálfan hring á holubarminum áður en hún ákvað að fara upp úr aftur. Eins og sést í myndbandinu áttu lýsendurnir varla til orð yfir þessu.

Sjón er sögu ríkari en myndbandið má sjá hér að neðan.