Fréttir

Myndband: Ótrúlegt athæfi Mickelson kostaði hann tvö högg
Phil Mickelson.
Laugardagur 16. júní 2018 kl. 19:53

Myndband: Ótrúlegt athæfi Mickelson kostaði hann tvö högg

Phil Mickelson átti ekki góðan dag á golfvellinum í dag á Opna bandaríska meistaramótinu. Hann lenti í miklum hremmingum á 13 holu dagsins þar sem að hann sló yfir flötina í öðru höggi. Þaðan vippaði hann aftur yfir flötina og kom sér svo loks inn á flötina í fjórða höggi.

Hann átti því um sex metra eftir fyrir skolla og þá gerðist ótrúlegt atvik þar sem að hann púttaði í boltann og sá hann að boltinn var ekki á leið í holunna og hljóp hann þá á eftir boltanum og púttaði í hann á ferð.

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.

Mickelson fékk fyrir þetta tvö högg í víti og lék því holuna á 10 höggum. Hringinn lék hann á 81 höggi og er eftir daginn samtals á 17 höggum yfir pari.

Eftir hringinn sagði Mickelson að ástæðan fyrir því að hann hafi gert þetta var sú að hann hefði viljað notfæra sér reglur golfsins í stað þess að láta boltann rúlla út af flötinni og enda á ómögulegum stað.