Fréttir

Myndband: Paul Lawrie hættur eftir 620 mót á Evrópumótaröðinni
Paul Lawrie.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 2. október 2020 kl. 19:22

Myndband: Paul Lawrie hættur eftir 620 mót á Evrópumótaröðinni

Skotinn Paul Lawrie sagði í viðtali eftir fyrsta hring Scottish Open mótsins sem hófst í gær á Evrópumótaröðinni að þetta yrði hans síðasta mót á Evrópumótaröðinni. Bæði finnst honum hann ekki lengur geta keppt almennilega lengur og það eru aðrir hlutir í lífinu sem eru skemmtilegri en að keppa í golfi. Mótið nú um helgina er hans 620. á mótaröðinni.

Lawrie hefur á sínum ferli unnið 15 atvinnumannamót, þar af eru átta af þeim sigrum á Evrópumótaröðinni og einn er risamót. Hann fagnaði sigri á Opna mótinu árið 1999 þegar mótið var leikið á Carnoustie vellinum í Skotlandi.

Þetta er vafalaust eitt af eftirminnilegustu risamótum síðari ára en þarna tapaði Jean van de Velde niður þriggja högga forystu á lokaholunni. Lawrie var aldrei í forystu í mótinu þegar hann sjálfur var úti á vellinum. Hann hafði svo betur í bráðabana á móti van de Velde og Justin Leonard.

Lawrie hefur undanfarin ár lagt sitt af mörkum í góðgerðarmálum en árið 2001 stofnaði hann Paul Lawrie góðgerðarsamtökin. Hann var einnig aðstoðar fyrirliði evrópska liðsins í Ryder bikarnum árið 2016.